7.3.05

Gáfulegt

Rýnirinn hefur oft velt því fyrir sér hvort það sé gott að vera gáfaður og hvort hann sé að missa af einhverju merkilegu með því að vera ekki mikill andans maður. Satt best að segja hefur hann ekki komist að niðurstöðu í málinu, kannski mest vegna þess að seint verður hann talinn með gáfaða fólkinu.

Hreinn Hjartahlýr, eða Ingólfur Gíslason, er hins vegar augljóslega afar gáfaður og mikill andans maður. Það er augljóst af pistlunum hans að hann er svo miklu greindari og meiri andans maður en við dauðlegir lesendur að það er ekki einu sinni ætlast til að við skiljum hann. Við eigum bara að súpa hveljur og dást að snilldinni sem er auðvitað miklu auðveldara fyrir alla.

Þá þarf ekkert endilega að vera neitt sérstakt vit í pistlunum, þeir þurfa bara að vera svo fullir af háfleygum hugmyndum að þeir líti út fyrir að vera gáfulegir. Auk þess sem við lesendur þurfum ekkert að vera lesa pistlana hans, við sjáum strax að þeir eru allt of háfleygir fyrir okkur svo við getum sagt við okkur sjálf, sem og aðra, "mikið er hann gáfaður þessi Hreinn Hjartahlýr."

Rýnirinn er Drottni allsherjar ákaflega þakklátur fyrir að hafa af óendanlegri visku sinni farið heldur sparlega með þegar hann úthlutaði Rýninum gáfum. Vegna þessa getur Rýnirinn dáðst óhindrað að fólki eins og Hreini sem skrifar texta sem lætur það sýnast vera gáfað.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home