23.3.05

Andargiftir við tjörnina

Rýnirinn er að eðlisfari afskaplega forvitinn. Eiginlega miklu forvitnari en honum er hollt. Vegna þessa er hann iðinn við að smella á hlekki hjá þeim bloggum sem hann álpast inn á. Þetta leiðir svo til þess að hann les enn fleiri blogg og svo koll af kolli.

Einn af þeim bloggurum sem Rýnirinn hefur rekist á á þessum ferðalögum um veraldarvefinn er Ólafur Stefánsson. Nú vill svo til að Ólafur er mikið fremri Rýninum í handbolta og auk þess augljóslega honum mun fremri í heimspekilegum vangaveltum. Að vísu hefur Rýnirinn aldrei spilað handbolta og aldrei lesið eitt einasta heimspekirit en það er nú aukaatriði.

Af ofangreindum ástæðum treystir Rýnirinn sér ekki til að gagnrýna efnistök bloggs Ólafs sem er auðvitað aðalatriðið í hverju bloggi. Heldur mun hann eins og honum einum er lagið snúa sér að aukaatriðum málsins. Eða ekki.

Rýnirinn verður að viðurkenna að honum finnst stíll Ólafs ekki skemmtilegur, textinn kemur í belg og biðu eins þetta sé allt skrifað í adrenalínrússi eftir erfiðan og spennandi landsleik. Hitt er þó mun verra að mati Rýnisins og er honum raunar alveg óskiljanlegt. Það er hvernig í ósköpunum Ólafi datt í hug að vera með bloggið sitt hjá blog.central.is. Rýnirinn er alfarið á þeirri skoðun að það sé leiðinlegasta umhverfi sem hægt er að finna fyrir blogg.

Rýninum leiðist til að mynda afar mikið að geta ekki lesið eldri pistla Ólafs en það hefur honum ekki enn tekist að finna út úr hvernig á að gera. Þess ber þó að geta að þar gæti ráðið nær algjör tölvulesblinda Rýnisins.

Eða ekki.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home