14.3.05

Sveitadrengur á mölinni

Eins og ráða má af fyrri pistlum þá er menntun Rýnisins mjög ábótavant. Ekki hefur hann langskólanám í bókmenntum eða annarri textarýni að baki. Því er ef til vill ekki að furða þótt blogg Ingólfs Júlíussonar valdi honum furðu á stundum.

Fyrir nú utan elju mannsins við að standa í hólmgöngum á bloggvellinum, sem er rannsóknarefni útaf fyrir sig, þá er það sviptingarnar í efnistökum sem valda Rýninum furðu. Flestir pistlarnir fjalla að sönnu um hve líf einyrkjans er óskaplega erfitt og auk þeirra eru venjubundnir pistlar um fjölskylduna. Slíkir pistlar eru auðvitað æsispennandi. Eða ekki.

En svo koma pistlarnir frá Ingólfi gamla á Ytri-Heljarþröm. Þar skrifar Ingólfur í orðastað gamals bónda sem ekki sér margt jákvætt við nútímann. Rýnirinn verður að viðurkenna að við lestur þessara pistla stekkur honum stundum bros. Bæði er að efnistökin eru oft nokkuð athyglisverð og eins hitt að Ingólfi tekst ekki alltaf nægilega vel upp í orðavalinu svo það passi gömlum afdalabónda. Á hinu telur Rýnirinn ekki nokkurn vafa að ef Ingólfur æfir þetta stílbragð betur og passar orðfærið þá geta þessir pistlar hans um orðið hin besta skemmtan.

Rétt er að taka fram að bæjarnafnið "Ytri-Heljarþröm" kemur hvergi fram í pistlum Ingólfs, heldur er það nafn sem kom fram í huga Rýnisins. Ekki rekur Rýninn minni til að bæjarnafn bóndans komi fram hjá Ingólfi en honum gæti sem best skjátlast í því efni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home