18.3.05

Á diskinn minn

Matur er í tísku.

Matreiðslubækur seljast sem aldrei fyrr og matreiðsluþættir eru á öllum sjónvarpsstöðvum. Jafnvel eru til sjónvarpsstöðvar sem senda eingöngu út þætti sem tengjast mat á einhvern hátt.

Það er því ekki skrítið að ein af alvinsælustu íslensku bloggsíðunum fjallar öðrum þræði um mat. Ef Rýnirinn man rétt lýsti Nanna því yfir í upphafi að þetta ætti að vera uppskriftablogg. Reyndar hefur nú verið upp og ofan hve mikið er af uppskriftum en alltaf er þó eitthvað.

Það er auðvitað ekki amalegt fyrir hinn almenna blogglesanda úti á víðáttum veraldarvefjarins að hafa svona góðan aðgang að helsta matargúrúi Íslands. Ekki er nóg með að Nanna birti uppskriftir á blogginu sínu heldur er hún mjög greiðvikin. Ef fólk sendir inn matartengdar fyrirspurnir í athugasemdakerfið þá svarar hún þeim undantekningarlaust. Í það minnsta hefur Rýnirinn ekki fundið dæmi um hið gagnstæða.

Eins og þessi pistill ber með sér hefur Rýnirinn lítt dulda matarást á Nönnu. En þótt matur sé áberandi á blogginu hennar Nönnu þá er margt fleira. Ekki fer framhjá neinum að Nanna er verulega góður penni. Hún segir mjög skemmtilega frá atburðum í lífi sínu.

Ekki er hægt að láta staðar numið án þess að minnast á Hjalta son Nönnu sem virðist vera mjög duglegur við húsverkin.

Eða ekki.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Mangiare e essere.

3/21/2005 04:13:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home