29.3.05

Hvað er málið?

Hver er eiginlega þessi Gísli? Hann virðist vera á móti öllu sem gerist á Íslandi, í grófum dráttum í það minnsta. Reyndar er það svo sem ekki neitt sem er sérstaklega lýsandi fyrir þetta blogg hans. Það eru margir á móti öllu sem gerist á Íslandi og þykjast sjálfsagt hafa ærna ástæðu til.

Það er fremur stílinn sem Rýninum finnst athyglisverður. Gísli nær þessum magnaða nöldurtóni sem Rýnirinn hélt að aðeins piparkerlingar á tíræðisaldri réðu yfir. Svo vel tekst honum upp að Rýnirinn bókstaflega heyrir tuldrið. Reyndar á Gísli það svo sammerkt með Erlingi, sem hér hefur verið nefndur, að vera sérdeilis illa við Framsóknarmenn. Ekki það að Rýnirinn ætli að gera það að vana sínum að halda uppi vörnum fyrir Framsóknarmenn.

Reyndar er það ekki alveg satt að Gísli sé á móti öllu sem gerist á Íslandi. Hann er fylgjandi flestu eða öllu sem gerist á Stöð 2 og fylgifiskum þeirrar stöðvar. Hvað sem það batterí heitir nú um stundir. Það er auðvitað mikill kostur á fólki að það fylgi sínu fólki að málum í gegnum þykkt og þunnt.

Eða kannski ekki.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home