11.4.05

Pirraðar pælingar

Eins og Rýnirinn nefndi í síðasta pistli er mikill hluti bloggara kvenkyns kennarar. Ein þeirra er Ásta Svavars. Ef marka má fyrirsögnina á blogginu hennar, þá hefur hún talsverðar áhyggjur af hjúskaparstöðu sinni. Það verður þó að viðurkennast að hún hefur ekki mikið bloggað um þetta (meinta) skelfingarástand.

Ásta þessi liggur almennt ekki á skoðunum sínum og á það sammerkt með ýmsum sem hér hafa verið nefndir að trúa ekki á að doktor Altúnga hafi haft rétt fyrir sér um að við búum í besta heimi allra heima. Reyndar finnst Rýninum á stundum að hún hafi allt á hornum sér eins og sannri pipraðri kennslukonu sæmir.

Umfjöllunarefni hennar eru reyndar af ýmsum toga. Hún fjallar talsvert mikið um kennslu, sem er alltaf jafn spennandi. Svo eru það kettirnir sem eru auðvitað jafn sjálfsagður hluti tilverunnar hjá pipraðri kennslukonu og nöldrið og hnúturinn í hárinu.

Það er skoðun Rýnisins að Ásta hafi slegið öll met í umfjöllunarefnum á blogginu sínu þegar hún skrifaði nokkra pistla um stíflulosun. Þetta var æsispennandi viðureign og veitti ýmsum betur. Rýnirinn fylgdist með þessu af áhuga og réð sér vart fyrir spenningi.

Eða ekki.

9.4.05

Hverjir blogga?

Er bloggið vettvangur fyrir menntafólk til að koma skoðunum sínum á framfæri? Af þeim fjölda blogga sem Rýnirinn hefur lesið er mikill meirihluti þeirra skrifaður af fólki sem annaðhvort er í háskóla, eða hefur lokið háskólanámi, að ógleymdum þeim brottföllnu.

Einnig virðist Rýninum að mikill meirihluti þeirra sem blogga séu konur. Það getur auðvitað verið að það sé vegna þess að Rýnirinn er meiri áhugamaður um konur en karla.

Að mati Rýnisins er steríótýpískur bloggari kvenkyns kennari. Það eru ótrúlega margir kennarar og kennaranemar sem blogga. Sjómenn eru svo steríótýpan af þeim sem ekki blogga. Rýninn rekur ekki minni til að hafa séð blogg eftir sjómann, ja það er að segja fyrir utan Erling sem var á sjó á sínum yngri árum.

Hvernig ætli standi á þessu? Ekki hefur Rýnirinn trú á því að sjómenn séu ekki nægilega tölvulæsir. Í nútímatogurum hefur tölvuöldin rækilega haldið innreið sína svo sjómenn eru ýmsu vanir. Ekki er blogger heldur svo flókinn að aðrir geti ekki lært á hann fyrst Rýnirinn gat það.

8.4.05

Voff

Hestar og efnafræði. Fullkomin blanda af viðfangsefnum sem öllum finnst gaman að lesa um, eða ekki.

Kona nokkur hefur dottið niður á þessa snilldar uppskrift að bloggi. Að vísu er það örlítið kryddað með æsispennandi sögum af því þegar hún fer út að hlaupa. Reyndar verður að segjast að það er ósanngjarnt að segja að bloggið fjalli bara um þetta. Ef Rýnirinn man rétt hefur hún líka fjallað um kökubakstur og eitthvað lítillega um kennslu í menntaskóla. Sem sagt, hvert viðfangsefnið öðru skemmtilegra, eða ekki.

Annars finnst Rýninum einn alvarlegur tæknilegur galli á nefndu bloggi. Reyndar er rétt að hafa þann fyrirvara að Rýnirinn er í fyrsta lagi nánast staurblindur og þar að auki alvarlega tölvulesblindur svo kannski fer hann með rangt mál. En sem sé þá fann Rýnirinn ekki út hvernig hægt væri að lesa eldri færslur á blogginu.

Það finnst Rýninum vera gríðarlega vont mál. Í fyrsta lagi vegna þess að það sem hér er nefnt að ofan er byggt á afar stopulu minni. Í annan stað vegna þess, sem er miklivægara, að Rýnirinn er mikill áhugamaður um hesta, efnafræði, hlaup og kökubakstur. Þessi tæknilegi galli hefur komið í veg fyrir að Rýnirinn gæti endurlesið eldri færslur um þetta efni á blogginu. Hefur þetta valdið Rýninum slíku hugarangri að hann hefur ekki geta á heilum sér tekið.

Eða ekki.

7.4.05

Frægð annarra

Eitt er það fyrirbrigði í hinum svokallaða "bloggheimi" sem Rýninum finnst í meira lagi undarlegt og jafnframt fremur leiðinlegt. Það eru það sem kallað hefur verið sníkjublogg og þeir sem það stunda sníkjubloggarar.

Það er að segja þeir sem skrifa langa, og í yfirgnæfandi meirihluta tilfella leiðinlega, pistla inn á athugasemdakerfi bloggara án þess að vera sjálfir með blogg. Þessir sníkjubloggarar skrifa þessar langlokur sínar í athugasemdakerfi mikið lesinna bloggara, væntanlega til þess að baða sig í frægð þeirra. Það er svo sem ljóst að það koma miklu mun fleiri til með að lesa sníkjubloggpistil sem er skrifaður í athugasemdakerfið hjá Nönnu, Stefáni eða Önnu, svo einhverjir séu nefndir, heldur en eitthvað blogg.

Reyndar sér Rýnirinn bara einn kost við þetta háttalag. Það er það að verður að teljast í hæsta máta ólíklegt að nokkur fara eyða tíma sínum í að skrifa slíka sníkjupistla í athugasemdakerfi Rýnisins.