29.3.05

Hvað er málið?

Hver er eiginlega þessi Gísli? Hann virðist vera á móti öllu sem gerist á Íslandi, í grófum dráttum í það minnsta. Reyndar er það svo sem ekki neitt sem er sérstaklega lýsandi fyrir þetta blogg hans. Það eru margir á móti öllu sem gerist á Íslandi og þykjast sjálfsagt hafa ærna ástæðu til.

Það er fremur stílinn sem Rýninum finnst athyglisverður. Gísli nær þessum magnaða nöldurtóni sem Rýnirinn hélt að aðeins piparkerlingar á tíræðisaldri réðu yfir. Svo vel tekst honum upp að Rýnirinn bókstaflega heyrir tuldrið. Reyndar á Gísli það svo sammerkt með Erlingi, sem hér hefur verið nefndur, að vera sérdeilis illa við Framsóknarmenn. Ekki það að Rýnirinn ætli að gera það að vana sínum að halda uppi vörnum fyrir Framsóknarmenn.

Reyndar er það ekki alveg satt að Gísli sé á móti öllu sem gerist á Íslandi. Hann er fylgjandi flestu eða öllu sem gerist á Stöð 2 og fylgifiskum þeirrar stöðvar. Hvað sem það batterí heitir nú um stundir. Það er auðvitað mikill kostur á fólki að það fylgi sínu fólki að málum í gegnum þykkt og þunnt.

Eða kannski ekki.

23.3.05

Andargiftir við tjörnina

Rýnirinn er að eðlisfari afskaplega forvitinn. Eiginlega miklu forvitnari en honum er hollt. Vegna þessa er hann iðinn við að smella á hlekki hjá þeim bloggum sem hann álpast inn á. Þetta leiðir svo til þess að hann les enn fleiri blogg og svo koll af kolli.

Einn af þeim bloggurum sem Rýnirinn hefur rekist á á þessum ferðalögum um veraldarvefinn er Ólafur Stefánsson. Nú vill svo til að Ólafur er mikið fremri Rýninum í handbolta og auk þess augljóslega honum mun fremri í heimspekilegum vangaveltum. Að vísu hefur Rýnirinn aldrei spilað handbolta og aldrei lesið eitt einasta heimspekirit en það er nú aukaatriði.

Af ofangreindum ástæðum treystir Rýnirinn sér ekki til að gagnrýna efnistök bloggs Ólafs sem er auðvitað aðalatriðið í hverju bloggi. Heldur mun hann eins og honum einum er lagið snúa sér að aukaatriðum málsins. Eða ekki.

Rýnirinn verður að viðurkenna að honum finnst stíll Ólafs ekki skemmtilegur, textinn kemur í belg og biðu eins þetta sé allt skrifað í adrenalínrússi eftir erfiðan og spennandi landsleik. Hitt er þó mun verra að mati Rýnisins og er honum raunar alveg óskiljanlegt. Það er hvernig í ósköpunum Ólafi datt í hug að vera með bloggið sitt hjá blog.central.is. Rýnirinn er alfarið á þeirri skoðun að það sé leiðinlegasta umhverfi sem hægt er að finna fyrir blogg.

Rýninum leiðist til að mynda afar mikið að geta ekki lesið eldri pistla Ólafs en það hefur honum ekki enn tekist að finna út úr hvernig á að gera. Þess ber þó að geta að þar gæti ráðið nær algjör tölvulesblinda Rýnisins.

Eða ekki.

22.3.05

Einu sinni var blogg

Yfirskrift bloggsins hennar Ernu Erlingsdóttur er "Almennt snakk og kjaftæði" ef minnið er ekki að stríða Rýninum þeim mun meira þá var yfirskriftin hér áður og fyrrum "Einu sinni var..."

Það er einlæg skoðun Rýnisins að hún hefði átt að halda sig við gömlu yfirskriftina. Sú er nefnilega ótrúlega lýsandi fyrir þessa síðu hennar Ernu. Einu sinni var þetta blogg og þá hefði ef til vill verið hægt að segja að þar væri almennt snakk og kjaftæði, en það er ansi erfitt að halda því fram núna. Það er í það minnsta skoðun Rýnisins að í þeim orðum felist að eitthvað sé skrifað á síðuna.

Rýnirinn hallast að því að Erna sé einhver mesti aumingjabloggari sem hann hefur fundið á ferð sinni um lendur internetsins. Rýninum telst til að hún hafi skrifað 19 pistla það sem af er árinu, ef með eru talin netpróf og auglýsing vegna mótmæla 19. mars. Rýninum sýnist að hún hafi skrifað fimmta hvern dag eða þar um bil að meðaltali.

Hitt er svo annað mál að þar sem pistlarnir hafa fjallað um jafn spennandi efni eins og litinn á Strætóhúsinu við Lækjartorg og amerískt raunveruleikasjónvarp, þá er þetta ef til vill best svona.

Eða ekki.

Viðbót
Erna hefur breytt yfirskriftinni í "Blogg stundað stundum" það er svo sem ekki mjög erfitt að standa við það.

18.3.05

Á diskinn minn

Matur er í tísku.

Matreiðslubækur seljast sem aldrei fyrr og matreiðsluþættir eru á öllum sjónvarpsstöðvum. Jafnvel eru til sjónvarpsstöðvar sem senda eingöngu út þætti sem tengjast mat á einhvern hátt.

Það er því ekki skrítið að ein af alvinsælustu íslensku bloggsíðunum fjallar öðrum þræði um mat. Ef Rýnirinn man rétt lýsti Nanna því yfir í upphafi að þetta ætti að vera uppskriftablogg. Reyndar hefur nú verið upp og ofan hve mikið er af uppskriftum en alltaf er þó eitthvað.

Það er auðvitað ekki amalegt fyrir hinn almenna blogglesanda úti á víðáttum veraldarvefjarins að hafa svona góðan aðgang að helsta matargúrúi Íslands. Ekki er nóg með að Nanna birti uppskriftir á blogginu sínu heldur er hún mjög greiðvikin. Ef fólk sendir inn matartengdar fyrirspurnir í athugasemdakerfið þá svarar hún þeim undantekningarlaust. Í það minnsta hefur Rýnirinn ekki fundið dæmi um hið gagnstæða.

Eins og þessi pistill ber með sér hefur Rýnirinn lítt dulda matarást á Nönnu. En þótt matur sé áberandi á blogginu hennar Nönnu þá er margt fleira. Ekki fer framhjá neinum að Nanna er verulega góður penni. Hún segir mjög skemmtilega frá atburðum í lífi sínu.

Ekki er hægt að láta staðar numið án þess að minnast á Hjalta son Nönnu sem virðist vera mjög duglegur við húsverkin.

Eða ekki.

16.3.05

Var einu sinni fyndinn

Bloggari nokkur ef borinn og barnfæddur Reykvíkingur ef Rýnirinn hefur skilið bloggið hans rétt. Maður þessi, sem er nýlega fluttur út á land, virðist í flestum tilfellum leggja talsvert mikið upp úr því að pistlarnir hans séu fyndnir. En að dómi Rýnisins mistekst það sorglega oft, sérstaklega nú upp á síðkastið.

Það er skoðun Rýnisins að eldri pistlar Jóns Svans sé margir nokkuð smellnir. Það er að segja pistlarnir síðan áður en hann flutti frá Reykjavík. Ekki er það þó skoðun Rýnis að þarna sé beint orsakasamband á milli. Það er áreiðanlega ekki svo að fólk sem flytur á Eskifjörð sé sprautað með bólefni gegn gamansemi. Það er þó Rýninum alveg hulið hver örsökin er fyrir þessari skyndilegu gengisfellingu húmorsins hjá manninum. Eiginlega finnst Rýninum þetta hið dularfyllsta mál.

Síðan Jón Svanur flutti austur þá hafa pistlar hana að mestu snúist um kennslu, barnauppeldi og verkamannavinnu. Eins og áður hefur komið fram finnst Rýninum pistlar um barnauppeldi gífurlega skemmtilegir. Það sama má segja um pistla sem fjalla um kennslu barna, þeir eru almennt alveg ótrúlega spennandi og áhugaverðir.

Eða ekki.

15.3.05

Hefði aldrei trúað þessu

Rýnirinn verður að segja eins og er að Anna er alveg full atvinna fyrir fótbrotinn mann. Verð að laumast á netið þegar hún sefur. Mun reyna aftur síðar.

14.3.05

Sveitadrengur á mölinni

Eins og ráða má af fyrri pistlum þá er menntun Rýnisins mjög ábótavant. Ekki hefur hann langskólanám í bókmenntum eða annarri textarýni að baki. Því er ef til vill ekki að furða þótt blogg Ingólfs Júlíussonar valdi honum furðu á stundum.

Fyrir nú utan elju mannsins við að standa í hólmgöngum á bloggvellinum, sem er rannsóknarefni útaf fyrir sig, þá er það sviptingarnar í efnistökum sem valda Rýninum furðu. Flestir pistlarnir fjalla að sönnu um hve líf einyrkjans er óskaplega erfitt og auk þeirra eru venjubundnir pistlar um fjölskylduna. Slíkir pistlar eru auðvitað æsispennandi. Eða ekki.

En svo koma pistlarnir frá Ingólfi gamla á Ytri-Heljarþröm. Þar skrifar Ingólfur í orðastað gamals bónda sem ekki sér margt jákvætt við nútímann. Rýnirinn verður að viðurkenna að við lestur þessara pistla stekkur honum stundum bros. Bæði er að efnistökin eru oft nokkuð athyglisverð og eins hitt að Ingólfi tekst ekki alltaf nægilega vel upp í orðavalinu svo það passi gömlum afdalabónda. Á hinu telur Rýnirinn ekki nokkurn vafa að ef Ingólfur æfir þetta stílbragð betur og passar orðfærið þá geta þessir pistlar hans um orðið hin besta skemmtan.

Rétt er að taka fram að bæjarnafnið "Ytri-Heljarþröm" kemur hvergi fram í pistlum Ingólfs, heldur er það nafn sem kom fram í huga Rýnisins. Ekki rekur Rýninn minni til að bæjarnafn bóndans komi fram hjá Ingólfi en honum gæti sem best skjátlast í því efni.

13.3.05

Háskólagráður

Ekki hefur Rýnirinn neitt á móti háskólagráðum, þær eru fínar til síns brúks. Enn síður hefur hann neitt á móti fólki sem skartar slíku gráðum. Slíkt fólk er í flestum tilfellum ágætis fólk, ekki síður en annað fólk.

Hitt verður Rýnirinn að viðurkenna að sér ekki nauðsyn þess fyrir bloggara að auglýsa fjölda þeirra háskólagráða sem viðkomandi hefur aflað sér, sér ekki að það komi lesendum bloggsins neitt við. Þetta hefur farfuglinn séð ástæðu til að gera. Ekki fylgir sögunni hvaða gráður það eru sem stúlkan hefur nælt sér í enda er það sjálfsagt aukaatriði.

Rýninum finnst þó ekki bloggið bera því vitni að hámenntuð kona ráði þar ríkjum. Þar er í það minnsta ekki mikið um háspekilegar vangaveltur. Meira er um dæmigert nöldur um lífið og tilveruna sem vart þarf langa háskólamenntun til að koma frá sér. Einnig er þar talað um karlmenn eða öllu heldur skort af þeim, æsispennandi. Eða ekki.

Nú er það auðvitað svo að háskólanám er fjölbreytt og langt því frá að Rýnirinn viti um allar greinar þess. Ef hann vissi til að hægt væri að afla sér meistaragráðu í "Áróðri gegn gömlum húsum" mundi hann telja að farfuglinn hafi einmitt gert það. Áhugi hennar á að rífa gömul hús í miðbæ Reykjavíkur er með hreinum ólíkindum.

11.3.05

Lokað! Af hverju?

Eins og Rýnirinn hefur áður nefnt verður hann seint talinn með allra beittustu hnífunum í skúffunni. Í beinu framhaldi af því ótal margt sem hann ekki skilur. Eitt af því sem Rýnirinn skilur alls ekki er af hverju fólk er með læst blog.

Maður að nafni Guðmundur Rúnar Svansson er með eitt slíkt. Ekki er nú margt bitastætt á þeim hluta bloggsins sem er almenningi aðgengilegur og af ástæðum sem ættu að vera ljósar er Rýninum ekki kunnugt hvað er á hinum læsta hluta.

Rýnirinn hlýtur þó að álykta sem svo að þar skrifi Guðmundur Rúnar eitthvað það sem hann kærir sig ekki um að allir lesi. Það vekur upp spurninguna: "Af hverju að skrifa eitthvað sem ekki er í lagi að allir lesi?" Það er Rýninum hulið en auðvitað verður hver og einn að gera slíkt upp við sig og sína samvisku.

Rýnirinn hafði hugsað sér að fjalla aðeins nánar um opna hluta bloggsins en þar fátt þessi virði að fjalla um það. Mikill meirihluti færslna þar eru hlekkir á fréttir á mbl.is eða visir.is, það er umdeilanlegt hvort slíkt er áhugavert.

Afrakstur erfiðis

Þar sem Rýnirinn er fluttur inn til Önnu, sjá hér, má búast við að pistlar hans verði strjálli á næstunni.

Eða ekki.

Það var ekki, og er ekki, ætlunin að fjalla um einstaka bloggara í fleiri en einum pistli. Hinsvegar sá Rýnirinn sér ekki annað fært en að svara þessum pistli Önnu.

10.3.05

Hey Jude!

Kona er nefnd Anna. Rýnirinn verður að viðurkenna að hann hefur lúmskt gaman af blogginu hennar. Ekki svo mjög vegna þess það sé svo fyndið. Heldur vegna þess hvernig hún gefur karlkyns lesendum miskunarlaust undir fótinn, til þess eins að hrekja þá frá sér aftur.

Anna er einstæð tveggja barna móðir í vesturbænum og á ákaflega bágt. Eða svo má í það minnsta skilja á blogginu hennar á stundum. Hún varð til dæmis fyrir þeirri skelfilegu lífsreynslu nú nýverið að hún braut nögl. Oft hefur verið lýst yfir þjóðarsorg af minna tilefni, það verður að segjast eins og er.

Sögur af ástarlífi Önnu eru fyrirferðarmiklar á blogginu, svo fyrirferðarmiklar að ekki verður hjá því komist að álykta að ekki sé allt satt og rétt sem þar sagt. Þótt ekki hvarfli að Rýninum að gera lítið úr sigrum Önnu á þessu sviði þá hefur Rýnirinn alltaf efast hálfpartinn um sannleiksgildi sagna af sambandi hennar við Jude Law.

En það er margt fleira í lífi Önnu en Jude Law og brotnar neglur. Á blogginu má finna æsispennadi sögur af ferðum í líkamsræktarstöðvar sem og sögur af tiltekt, matseld og öðru áhugaverðu heimishaldi.

Ekki er hægt að láta staðar numið án þess að nefna samskipti Önnu við læknana sína. Það er gríðarlega áhugaverður lestur. Eða ekki.

9.3.05

Hvað gera orð?

Geta blótsyrði og önnur stóryrði komið í stað skynsamlegra raka? Rýninum virðist að sumt fólk haldi að svo sé.

Rýnirinn er eindregið á þeirri skoðun að fólk eigi að tjá sig á bloggsíðum sínum um þjóðmál og önnur þau mál sem eru efst á baugi í umræðunni hverju sinni. En hann er jafnframt eindregið þeirrar skoðunnar að fólk sem ekki getur lagt neitt annað til málanna er gífuryrði reyni aðeins að hugsa sinn gang.

Þessar hugleiðingar komu upp í huga Rýnisins eftir að hafa lesið blogg Hnakkusar. Rýnirinn þykist nú vera ýmsu vanur en annað eins samansafn gífuryrða hefur hann ekki í annan tíma séð. Getur verið að Hnakkus haldi að þetta sé fyndið? Eða heldur hann að hann sé meiri maður vegna þess að hann notar gífuryrði? Spyr sá sem ekki veit.

Rýnirinn er áhugamaður um mannlega hegðun, í það minnsta þann hluta hennar sem birtist á bloggsíðum. Hann hefur því velt fyrir sér hvað geti valdið slíkum blótsyrðaflaumi. Kemur Rýninum helst í hug að Hnakkus hafi dvalið löngum stundum fyrir framan sjónvarp og horft á útsendingar tónlistarstöðva á efni frá rapplistamönnum.

Það er þekkt víða um lönd að börn og aðrir lítt þroskaðir einstaklingar líta mjög upp til tónlistarmanna og tileinka sér málfar þeirra. Veldur það til að mynda oft því að börn og unglingar taka upp málfar rapparanna sem er vægast sagt ekki til fyrirmyndar.

8.3.05

Lífið í sveitinni

Það er víst líf utan borgarmarkanna, ótrúlegt en satt. Það er meira að segja til fólk sem býr í sveitinni, með dýr! Hesta, kindur og hvað svoleiðis nú heitir. Þetta hefur Rýnirinn sannfærst um við lestur bloggsins hennar Hörpu.

Í sveitinni gerast ekki síður æsispennandi hlutir en í borginni. Upp á síðkastið höfum við til að mynda getað fylgst með spennuþrungnum dögum þegar fósturvísar í ám voru taldir, þegar skýrsla vegna virðisaukaskatts var útfyllt og síðast en ekki síst fjárbókhaldinu var sinnt.

Auk þessa þá fréttum við að Harpa tók próf, að því er virtist án þess að læra undir það. Ekki má heldur gleyma því að hún hefur tekið nokkur netpróf núna nýverið, það er alltaf jafn spennandi lesning.

Það kom Rýninum verulega á óvart nú um helgina þegar Harpa hélt því fram í blogpistli að hún ætti vini af holdi og blóði. Þar sem Rýnirinn taldi að áðurnefndar vísbendingar bentu alfarið til hins gagnstæða.

7.3.05

Gáfulegt

Rýnirinn hefur oft velt því fyrir sér hvort það sé gott að vera gáfaður og hvort hann sé að missa af einhverju merkilegu með því að vera ekki mikill andans maður. Satt best að segja hefur hann ekki komist að niðurstöðu í málinu, kannski mest vegna þess að seint verður hann talinn með gáfaða fólkinu.

Hreinn Hjartahlýr, eða Ingólfur Gíslason, er hins vegar augljóslega afar gáfaður og mikill andans maður. Það er augljóst af pistlunum hans að hann er svo miklu greindari og meiri andans maður en við dauðlegir lesendur að það er ekki einu sinni ætlast til að við skiljum hann. Við eigum bara að súpa hveljur og dást að snilldinni sem er auðvitað miklu auðveldara fyrir alla.

Þá þarf ekkert endilega að vera neitt sérstakt vit í pistlunum, þeir þurfa bara að vera svo fullir af háfleygum hugmyndum að þeir líti út fyrir að vera gáfulegir. Auk þess sem við lesendur þurfum ekkert að vera lesa pistlana hans, við sjáum strax að þeir eru allt of háfleygir fyrir okkur svo við getum sagt við okkur sjálf, sem og aðra, "mikið er hann gáfaður þessi Hreinn Hjartahlýr."

Rýnirinn er Drottni allsherjar ákaflega þakklátur fyrir að hafa af óendanlegri visku sinni farið heldur sparlega með þegar hann úthlutaði Rýninum gáfum. Vegna þessa getur Rýnirinn dáðst óhindrað að fólki eins og Hreini sem skrifar texta sem lætur það sýnast vera gáfað.

6.3.05

Woddy hver?

Verður bloggari merkilegur við það að telja upp merkilegt fólk í blogpistli? Smitast snilldin á einhvern hátt yfir á bloggarann ef hann telur upp nægilega marga snillinga? Þetta eru spurningar sem hafa leitað á Rýninn núna síðustu daga.

Þórunn Hrefna virðist vera á þeirri skoðun. Hvorki fleiri né færri en fimm andans jöfrar í sömu færslunni, sem að öðru leyti er ekkert nema misskondnar tilvitnanir í Woddy Allen kvikmyndir. Er það snilld? Ef til vill.

Vandinn er hins vegar sá að þegar Þórunn Hrefna bloggar með þeim hætti að afrita samtöl úr kvikmyndum þá missa lesendur af að lesa hinn venjulega texta hennar. Venjulega fjalla bloggin um hve erfitt hlutskipti hennar er í kjallaraholu í vesturbænum. Baráttan við deadline, uppvask og uppeldi sonarins tekur greinilega gríðarlega á, sem aftur veldur því að þetta er æsispennandi lesning. Eða ekki.

Ekki ætlar Rýnirinn að kveða upp úr með það hvort lýsir meiri snilld. Hokursögur úr vesturbænum eða gífurleg "namedropping". Ef það er rétt hjá Þórunni Hrefnu að það að telja upp stórmenni andans auki mátt anda þess er upptalninguna fremur og þar að auki hróður hans, þá er ljóst að Rýnirinn hefur valið sér algjörlega röng viðfangsefni í þessum pistlum sínum.

5.3.05

Grumpy

Þið munið eftir kvikmyndinni Grumpy Old Men, er það ekki?

Mér dettur sú ágæta mynd alltaf í hug þegar ég lít inn á bloggið hans Erlings og það er ekki vegna þess að hann sé svo yfirgengilega fyndinn að öllu jöfnu. Það er reyndar ansi smellið hve hann er drjúgur yfir því hvað hann er mikið tæknitröll. Það er að segja að eigin áliti, ekki er vitað hvaða skoðun aðrir hafa á því máli.

Það virðist ekki vera mjög auðvelt að búa á Selfossi og kenna í Fjölbrautarskóla Suðurlands. En það er auðvitað mest vegna þess að allir eru á móti karlgreyinu. Nema kvenfólkið sem er flest, eða allt, æst í að komast í bælið með honum.

Verstir eru Framsóknarmennirnir sem sækja að honum úr öllum áttum eins og hver önnur plága. Hann má til dæmis ekki opna fyrir útvarp eða sjónvarp án þess að þar sé þessi óværa. Þetta er ekki á nokkurn mann leggjandi og engin furða að stundum sé skapið stirt.

Erlingur er einn af þessu fólki sem ekki sér sólina fyrir einhverju kattaróféti. Reyndar virðist læðan á stundum vera hans eini andlegi félagi.

4.3.05

Fjölskyldan

Þið hafið tekið eftir henni, er það ekki? Ég trúi ekki öðru.

Ég er að tala um Rúnarsfjölskylduna, þar sem Hildigunnur er í hlutverki Don Corleone. Það er að segja Donnu Rúnars.

Á blogginu hennar fáum við að fylgjast í smáatriðum með þegar Fjölskyldan flytur þetta verk eða hitt, oft eftir Donnu sjálfa. Æsispennandi svo ekki sé nú dýpra í árinna tekið.

Hér um daginn var hún eitthvað að agnúast út í fólk fyrir að vilja borga 30 þúsund krónur fyrir að hlýða á "over the hill" tenór í íþróttahúsi. Væntanlega veit hún mæta vel sjálf að úrvalið af nothæfum tónlistarhúsum á Íslandi er ekkert til að falla í stafi yfir. Það eru auðvitað einhverjar kirkjur og svo Salurinn í Kópavogi en þar komast ekki nema 4 í sæti, nú eða Gunnar Birgisson.


Fyrir utan tónlistarafrek Fjölskyldunnar fáum við að frétta reglulega, undarlega reglulega, af því að þau hjónakornin hafi unnið þennan eða hinn rauðvínspottinn.

Svo er það kötturinn! Hvað er þetta með kattaeigendur? Af hverju halda þeir að kettir séu merkileg dýr?

3.3.05

Bráðabirgða?

Hvernig er það, er þessi Bergþór ekki atvinnulaus verkfræðingur? Sérhæfður í einhverju í tölvugeiranum? Ég tók það þannig, skildi reyndar aldrei bofs í þessu villukjaftæði hjá honum.

Þar sem maðurinn er atvinnulaus og (hugsanlega) menntaður í tölvugeiranum þá finnst mér að hann ætti nú að reyna að koma einhverju lagi á þessa heimasíðuómynd sína sem er búin að vera til bráðabirgða síðan 2002 eftir því sem stendur á síðunni. Ef þetta eru vinnubrögðin hjá manninum þá skil ég vel að hann sé atvinnulaus, ekki mundi ég ráða hann í vinnu.

Hvað er líka málið með þessar eilífu vísbendingaspurningar? Finnst virkilega einhverjum gaman að þessu? Það virðist reyndar vera, einhverjir taka þátt í þessu hjá honum. Aðallega kvenfólk samt, og einhverjir ættingjar. Ætli þessar konur hafi aldrei séð manninn? Ég meina það eru myndir af honum inni á síðunni. Ekki það að ég ætli að fara að vera með skítkast út af útliti mannsins, nóg er nú samt.

Til dæmis er nú hönnunin á síðunni ekki upp á marga fiskana. Fimm ára barn gæti hannað mun fallegri síðu á örfáum mínútum. Af hverju ætli hann noti ekki blogger eða aðra slíka þjónustu? Spyr sá sem ekki veit.

2.3.05

Besti hvað?

Er einhver sem er orðinn tvítugur sem er ekki hjartanlega sama um þennan "Gettu betur" þátt í Sjónvarpinu? Það er að segja fyrir utan Stefán, sem í örvæntingarfullri, og fullkomlega misheppnaðri, tilraun til þess að sýnast svalur breytti nafni sínu í #. Guð minn almáttugur hjálpi mér, er maðurinn algjörlega skyni skroppinn? Getur virkilega verið að hann haldi að þetta sé fyndið? Ætli geti verið að þessi maður, sem er slíkur örlaga beturviti, viti ekki afhverju tónlistarmaðurinn Prince Rogers Nelson tók upp merki í stað nafns?

Stefán þessi er annars merkilegt eintak að mörgu leyti. Hann heldur með knattspyrnuliðinu Luton Town í Englandi að því er virðist vegna þess að þeir eru skítalið, afsakið orðbragðið. Hann virðist nefnilega halda að vinstrisinnar verði alltaf að halda með þeim sem minna mega sín. Nú vill svo til að Luton er að standa sig ágætlega í ensku 1. deildinni (3. deild í raun og veru) og gæti farið upp um deild. Hlýtur þá sú spurning að vakna hvort Stefán verður ekki að fara að halda með öðru liði sem ekkert getur.

PMS bloggið

Eitt hefur vakið furðu mína öðru fremur síðustu 10 mánuði eða svo. Hvernig í veröldinni getur Þórdís verið þjáð af fyrirtíðarspennu alltaf? Það er með hreinum ólíkindum hvað konan getur alltaf haft allt á hornum sér.

Fyrst hélt ég að þetta væri einhverskonar stílbragð en hef alfarið fallið frá þeirri skoðun. Konan hlýtur bara að vera stöðugt í fýlu, mikið lifandi skelfing held ég að það hljóti að vera leiðinlegt að vinna með henni. Nema hún fái alfarið útrás fyrir skapvonsku sína á blogginu og sé hvers manns hugljúfi sem reytir af sér gamansögur í vinnunni. Trúlegt!

Mér hefur verið sagt að gamalt fólk þykist muna að hún hafi stundum bloggað skemmtilega þegar hún var við nám í Svíþjóð. Þótt ég eigi bágt að ímynda mér að það sé rétt þá gæti hugsast að henni hafi fundist svona gaman þar og því hafi hamingjan smitast inn á bloggið.

Henni finnst þá væntanlega leiðinlegt í vinnunni sem aftur sést á blogginu núna. Þá sjaldan það sem hún skrifar er ekki bara tómt nöldur þá er hún að reyna að koma lesendum sínum til að halda að hún hafi óskaplega mikið vit á bókmenntum og leiklist.

1.3.05

Passið þið ykkur bara

Hér verðu farið ómjúkum höndum um þá einstaklinga sem Rýninum þykir ástæða til að taka á beinið hverju sinni. Ef einhverjum finnst ómaklega að sér vegið getur sá hinn sami reynt að væla í athugasemdakerfið. Líkurnar á að tekið verið mark á hugsanlegum umkvörtunum eru þó alveg hverfandi.

Hér hefur Rýnirinn alræðisvald, skoðanir hans eru lög, og verður ekki hnekkt. Hér hefur Rýnirinn bæði fyrsta og síðasta orðið.

Hefst þá lesturinn

Það þarf ekki gríðarlega greindan einstakling til að sjá að þetta pakk sem heldur úti bloggsíðum á Íslandi er ekkert "créme de la créme" Íslendinga. Flestar síðurnar eru ótrúlega innantómt blaður.
Höfundarnir skiptast nokkuð í tvo hópa, þá sem eru illa haldnir af minnimáttarkennd og nota netið til þess að reyna að nudda einhverju smálífi í algjörlega steindautt sjálf. Hinsvegar eru það þeir sem eru að farast úr mikilmennskubrjálæði. Þeir halda, nei þeir vita, að skoðanir þeirra á mönnum og málefnum eru svo merkilegar að þeim verður að koma á framfæri. Þessi hópur skilur ekki hvernig á því stendur að bókaútgefendur eru ekki búnir að hafa samband við þá fyrir löngu til að gefa snilldina út á pappír.

Þeir geta þó huggað sig við að bókaútgefendur eru aular sem ekkert vit hafa á sannri ritlist og hafa fyrir löngu gefið upp allt samband við listagyðjuna en eiga í þess stað í undarlegu og afar afbrigðilegu kynferðislegu sambandi við gullkálfinn..