11.4.05

Pirraðar pælingar

Eins og Rýnirinn nefndi í síðasta pistli er mikill hluti bloggara kvenkyns kennarar. Ein þeirra er Ásta Svavars. Ef marka má fyrirsögnina á blogginu hennar, þá hefur hún talsverðar áhyggjur af hjúskaparstöðu sinni. Það verður þó að viðurkennast að hún hefur ekki mikið bloggað um þetta (meinta) skelfingarástand.

Ásta þessi liggur almennt ekki á skoðunum sínum og á það sammerkt með ýmsum sem hér hafa verið nefndir að trúa ekki á að doktor Altúnga hafi haft rétt fyrir sér um að við búum í besta heimi allra heima. Reyndar finnst Rýninum á stundum að hún hafi allt á hornum sér eins og sannri pipraðri kennslukonu sæmir.

Umfjöllunarefni hennar eru reyndar af ýmsum toga. Hún fjallar talsvert mikið um kennslu, sem er alltaf jafn spennandi. Svo eru það kettirnir sem eru auðvitað jafn sjálfsagður hluti tilverunnar hjá pipraðri kennslukonu og nöldrið og hnúturinn í hárinu.

Það er skoðun Rýnisins að Ásta hafi slegið öll met í umfjöllunarefnum á blogginu sínu þegar hún skrifaði nokkra pistla um stíflulosun. Þetta var æsispennandi viðureign og veitti ýmsum betur. Rýnirinn fylgdist með þessu af áhuga og réð sér vart fyrir spenningi.

Eða ekki.

9.4.05

Hverjir blogga?

Er bloggið vettvangur fyrir menntafólk til að koma skoðunum sínum á framfæri? Af þeim fjölda blogga sem Rýnirinn hefur lesið er mikill meirihluti þeirra skrifaður af fólki sem annaðhvort er í háskóla, eða hefur lokið háskólanámi, að ógleymdum þeim brottföllnu.

Einnig virðist Rýninum að mikill meirihluti þeirra sem blogga séu konur. Það getur auðvitað verið að það sé vegna þess að Rýnirinn er meiri áhugamaður um konur en karla.

Að mati Rýnisins er steríótýpískur bloggari kvenkyns kennari. Það eru ótrúlega margir kennarar og kennaranemar sem blogga. Sjómenn eru svo steríótýpan af þeim sem ekki blogga. Rýninn rekur ekki minni til að hafa séð blogg eftir sjómann, ja það er að segja fyrir utan Erling sem var á sjó á sínum yngri árum.

Hvernig ætli standi á þessu? Ekki hefur Rýnirinn trú á því að sjómenn séu ekki nægilega tölvulæsir. Í nútímatogurum hefur tölvuöldin rækilega haldið innreið sína svo sjómenn eru ýmsu vanir. Ekki er blogger heldur svo flókinn að aðrir geti ekki lært á hann fyrst Rýnirinn gat það.

8.4.05

Voff

Hestar og efnafræði. Fullkomin blanda af viðfangsefnum sem öllum finnst gaman að lesa um, eða ekki.

Kona nokkur hefur dottið niður á þessa snilldar uppskrift að bloggi. Að vísu er það örlítið kryddað með æsispennandi sögum af því þegar hún fer út að hlaupa. Reyndar verður að segjast að það er ósanngjarnt að segja að bloggið fjalli bara um þetta. Ef Rýnirinn man rétt hefur hún líka fjallað um kökubakstur og eitthvað lítillega um kennslu í menntaskóla. Sem sagt, hvert viðfangsefnið öðru skemmtilegra, eða ekki.

Annars finnst Rýninum einn alvarlegur tæknilegur galli á nefndu bloggi. Reyndar er rétt að hafa þann fyrirvara að Rýnirinn er í fyrsta lagi nánast staurblindur og þar að auki alvarlega tölvulesblindur svo kannski fer hann með rangt mál. En sem sé þá fann Rýnirinn ekki út hvernig hægt væri að lesa eldri færslur á blogginu.

Það finnst Rýninum vera gríðarlega vont mál. Í fyrsta lagi vegna þess að það sem hér er nefnt að ofan er byggt á afar stopulu minni. Í annan stað vegna þess, sem er miklivægara, að Rýnirinn er mikill áhugamaður um hesta, efnafræði, hlaup og kökubakstur. Þessi tæknilegi galli hefur komið í veg fyrir að Rýnirinn gæti endurlesið eldri færslur um þetta efni á blogginu. Hefur þetta valdið Rýninum slíku hugarangri að hann hefur ekki geta á heilum sér tekið.

Eða ekki.

7.4.05

Frægð annarra

Eitt er það fyrirbrigði í hinum svokallaða "bloggheimi" sem Rýninum finnst í meira lagi undarlegt og jafnframt fremur leiðinlegt. Það eru það sem kallað hefur verið sníkjublogg og þeir sem það stunda sníkjubloggarar.

Það er að segja þeir sem skrifa langa, og í yfirgnæfandi meirihluta tilfella leiðinlega, pistla inn á athugasemdakerfi bloggara án þess að vera sjálfir með blogg. Þessir sníkjubloggarar skrifa þessar langlokur sínar í athugasemdakerfi mikið lesinna bloggara, væntanlega til þess að baða sig í frægð þeirra. Það er svo sem ljóst að það koma miklu mun fleiri til með að lesa sníkjubloggpistil sem er skrifaður í athugasemdakerfið hjá Nönnu, Stefáni eða Önnu, svo einhverjir séu nefndir, heldur en eitthvað blogg.

Reyndar sér Rýnirinn bara einn kost við þetta háttalag. Það er það að verður að teljast í hæsta máta ólíklegt að nokkur fara eyða tíma sínum í að skrifa slíka sníkjupistla í athugasemdakerfi Rýnisins.

29.3.05

Hvað er málið?

Hver er eiginlega þessi Gísli? Hann virðist vera á móti öllu sem gerist á Íslandi, í grófum dráttum í það minnsta. Reyndar er það svo sem ekki neitt sem er sérstaklega lýsandi fyrir þetta blogg hans. Það eru margir á móti öllu sem gerist á Íslandi og þykjast sjálfsagt hafa ærna ástæðu til.

Það er fremur stílinn sem Rýninum finnst athyglisverður. Gísli nær þessum magnaða nöldurtóni sem Rýnirinn hélt að aðeins piparkerlingar á tíræðisaldri réðu yfir. Svo vel tekst honum upp að Rýnirinn bókstaflega heyrir tuldrið. Reyndar á Gísli það svo sammerkt með Erlingi, sem hér hefur verið nefndur, að vera sérdeilis illa við Framsóknarmenn. Ekki það að Rýnirinn ætli að gera það að vana sínum að halda uppi vörnum fyrir Framsóknarmenn.

Reyndar er það ekki alveg satt að Gísli sé á móti öllu sem gerist á Íslandi. Hann er fylgjandi flestu eða öllu sem gerist á Stöð 2 og fylgifiskum þeirrar stöðvar. Hvað sem það batterí heitir nú um stundir. Það er auðvitað mikill kostur á fólki að það fylgi sínu fólki að málum í gegnum þykkt og þunnt.

Eða kannski ekki.

23.3.05

Andargiftir við tjörnina

Rýnirinn er að eðlisfari afskaplega forvitinn. Eiginlega miklu forvitnari en honum er hollt. Vegna þessa er hann iðinn við að smella á hlekki hjá þeim bloggum sem hann álpast inn á. Þetta leiðir svo til þess að hann les enn fleiri blogg og svo koll af kolli.

Einn af þeim bloggurum sem Rýnirinn hefur rekist á á þessum ferðalögum um veraldarvefinn er Ólafur Stefánsson. Nú vill svo til að Ólafur er mikið fremri Rýninum í handbolta og auk þess augljóslega honum mun fremri í heimspekilegum vangaveltum. Að vísu hefur Rýnirinn aldrei spilað handbolta og aldrei lesið eitt einasta heimspekirit en það er nú aukaatriði.

Af ofangreindum ástæðum treystir Rýnirinn sér ekki til að gagnrýna efnistök bloggs Ólafs sem er auðvitað aðalatriðið í hverju bloggi. Heldur mun hann eins og honum einum er lagið snúa sér að aukaatriðum málsins. Eða ekki.

Rýnirinn verður að viðurkenna að honum finnst stíll Ólafs ekki skemmtilegur, textinn kemur í belg og biðu eins þetta sé allt skrifað í adrenalínrússi eftir erfiðan og spennandi landsleik. Hitt er þó mun verra að mati Rýnisins og er honum raunar alveg óskiljanlegt. Það er hvernig í ósköpunum Ólafi datt í hug að vera með bloggið sitt hjá blog.central.is. Rýnirinn er alfarið á þeirri skoðun að það sé leiðinlegasta umhverfi sem hægt er að finna fyrir blogg.

Rýninum leiðist til að mynda afar mikið að geta ekki lesið eldri pistla Ólafs en það hefur honum ekki enn tekist að finna út úr hvernig á að gera. Þess ber þó að geta að þar gæti ráðið nær algjör tölvulesblinda Rýnisins.

Eða ekki.

22.3.05

Einu sinni var blogg

Yfirskrift bloggsins hennar Ernu Erlingsdóttur er "Almennt snakk og kjaftæði" ef minnið er ekki að stríða Rýninum þeim mun meira þá var yfirskriftin hér áður og fyrrum "Einu sinni var..."

Það er einlæg skoðun Rýnisins að hún hefði átt að halda sig við gömlu yfirskriftina. Sú er nefnilega ótrúlega lýsandi fyrir þessa síðu hennar Ernu. Einu sinni var þetta blogg og þá hefði ef til vill verið hægt að segja að þar væri almennt snakk og kjaftæði, en það er ansi erfitt að halda því fram núna. Það er í það minnsta skoðun Rýnisins að í þeim orðum felist að eitthvað sé skrifað á síðuna.

Rýnirinn hallast að því að Erna sé einhver mesti aumingjabloggari sem hann hefur fundið á ferð sinni um lendur internetsins. Rýninum telst til að hún hafi skrifað 19 pistla það sem af er árinu, ef með eru talin netpróf og auglýsing vegna mótmæla 19. mars. Rýninum sýnist að hún hafi skrifað fimmta hvern dag eða þar um bil að meðaltali.

Hitt er svo annað mál að þar sem pistlarnir hafa fjallað um jafn spennandi efni eins og litinn á Strætóhúsinu við Lækjartorg og amerískt raunveruleikasjónvarp, þá er þetta ef til vill best svona.

Eða ekki.

Viðbót
Erna hefur breytt yfirskriftinni í "Blogg stundað stundum" það er svo sem ekki mjög erfitt að standa við það.